Nautahakkschili með cheddarskonsum

Ég prófaði þessa uppskrift frá Ljúfmeti og lekkerheit og get mælt með henni. Hún er soldið stór fyrir okkar heimili þannig að ég gerði bara 1/3 uppskrift af chili-inu en heila uppskrift af skonsunum og það var nóg handa fjórum.

1 meðalstór laukur, hakkaður
1 1/2 msk bragðlítil olía
2 hvítlauksrif, hökkuð
1 lítil gulrót, skorin í þunnar sneiðar
450 gr nautahakk
1 msk chili duft
tæplega 1/2 msk cumin
tæplega 1 msk paprikuduft
1 tsk oregano
1 tsk þurrkaðar chili flögur
tæplega 1 dós hakkaðir tómatar
1/2 bolli vatn
1/2 nautakraftsteningur
1 msk hvítvínsedik
tæplega 1/2 dós nýrnabaunir
1/2 græn paprika, smátt skorin

————————————-

Hitið olíu við vægan hita í stórri pönnu og steikið laukinn í 5-10 mínútur, eða þar til hann er mjúkur.

Bætið hvítlauk og gulrótum á pönnuna og steikið áfram í 1 mínútu.

Hækkið hitann upp í miðlungshita og bætið nautahakkinu á pönnuna. Brjótið hakkið í sundur og hrærið reglulega í á meðan það steikist, um 10 mínútur.

Bætið chilidufti, cumin, paprikudufti, oregano og þurrkuðum chili piparflögum saman við og steikið áfram í aðra mínútu.

Bætið niðursoðnum tómötum, vatni, teningi og hvítvínsediki á pönnuna og látið sjóða undir loki við vægan hita í 35-40 mínútur.

Skolið nýrnabaunirnar vel og látið renna af þeim.

Bætið nýrnabaununum á pönnuna ásamt papriku. Saltið og piprið eftir smekk og látið sjóða í 15 mínútur til viðbótar, eða þar til paprikan er orðin mjúk.

 

Cheddarskonsur:

1 1/2 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2 msk kalt smjör, skorið í litla bita
1 1/2 bolli rifinn cheddar ostur
1 bolli sýrður rjómi

Hitið ofninn í 215°. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti í stórri skál. Blandið smjörinu vel saman við með höndunum. Hrærið cheddarostinum og sýrða rjómanum saman við þar til blandan myndar klístrað deig.

Fletjið deigið út á vel hveitistráðu borði svo það verði rúmur sentimeter á þykkt. Notið glas eða annað hringlaga form til að skera 6-8 hringi úr deginu, miðið við að hringirnir séu um 8 sentimetrar í þvermál.

Setjið deighringina á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og bakið í 15-17 mínútur, eða þar til skonsurnar eru gylltar á lit.

Ath. að ef þið viljið vinna á undan ykkur, t.d. fyrir matarboð, þá er hægt að útbúa skonsurnar og frysta þær óbakaðar. Það má síðan setja þær frosnar í ofninn en bætið þá 1-2 mínútum við bökunartímann.

[Að mínu mati voru skonsurnar heldur litlar ef þær eru skornar út með glasi, myndi forma þær í höndunum næst og gera þær stærri]


Líkar uppskriftir

Athugasemdir

Engar athugasemdir ennþá

Vertu fyrst(ur) til að skrifa athugasemd skrifa athugasemd við færslu

Skrifa athugasemd