Tómat- karrý kjúklingur og hrísgrjón með hnetum

Ég sá þessa uppskrift upprunalega á Eldhúsperlum en aðlagaði hana aðeins. Í fyrsta lagi var hún alltof stór fyrir okkur tvö og svo breytti ég nokkrum smáhlutum hér og þar. Þessi uppskrift er semsagt fyrir tvo. Fyrir neðan er uppskrift að grjónum sem passa vel með.

200 ml Heinz chilisósa
1 1/2 tsk karrý
1/2 tsk nýmalaður svartur pipar og smá salt
2 kjúklingabringur
150 ml kókosmjólk
saxað ferskt kóreander til skrauts

—————————————–

Blandið saman chilisósu, karrý og pipar í lítilli skál og hellið í frekar lítið eldfast mót. Skerið nokkrar rákir í kjúklingabringurnar svo sósan fari val inní kjötið. Makið sósunni vel á bringurnar og látið standa í 15 mínútur. Stráið smá salti yfir. Hitið ofninn á meðan í 200°C (400°F) og farið að huga að grjónunum (uppskrift fyrir neðan).

Setjið bringurnar í ofninn og bakið fyrst í 20 mínútur. Hellið svo kókosmjólkinni í fatið, hrærið létt og ausið yfir bringurnar með skeið. Bakið áfram í 15 mínútur eða aðeins lengur ef þið eruð með stórar bringur. Ég var með litlar og þær voru mátulegar eftir samtals 35 mínútur. Skreytið í lokin með fersku kóreander.

Hrísgrjón:

1/2 bolli hrísgrjón
1 bolli vatn
1/2 dl ristaðar jarðhnetur
1/2 msk smjör
1/2 laukur, smátt skorinn
1/2 tsk rifið ferskt engifer
3/4 dl rifnar gulrætur
salt eftir smekk
cayenne pipar eftir smekk (pínu pons bara)
saxað ferskt kóreander til skrauts

—————————————–

Sjóðið grjónin í meðalstórum potti eftir leiðbeiningum, líklega 10-15 mínútur. Undirbúið gumsið sem fer í þau á meðan.

Setjið hneturnar í litla matvinnsluvél eða saxið þær gróflega með hníf. Hitið smjörið í litlum potti við meðalhita. Steikið laukinn í smjörinu þar til hann fer að mýkjast, ca 5-10 mínútur. Bætið við engiferinu, gulrótunum og salti og hrærið. Setjið lok á pottinn og lækkið hitann. Látið malla í 5 mínútur. Bætið cayenne og hnetum við og blandið vel. Blandið gumsinu og grjónunum saman og skreytið með fersku kóreander.


Líkar uppskriftir

Athugasemdir

Engar athugasemdir ennþá

Vertu fyrst(ur) til að skrifa athugasemd skrifa athugasemd við færslu

Skrifa athugasemd