Blogg

Hægeldun: sniðugt tæki fyrir upptekna

Ég lét loksins verða af því á dögunum að fá mér slow-cooker, en ég var búin að spá í því í soldinn tíma að fá mér þannig. Ég veit ekki hvort það er til almennilegt íslenskt orð yfir þetta tæki, en köllum þetta bara hægeldara. Þetta er líka stundum kallað Crockpot á ensku en skilst að það sé fyrsta tegundin af þessum pottum sem kom út, en þessi sem ég fékk mér er einmitt af tegundinni Crockpot. Hérna er linkurinn á þennan sem ég á, en núna er hann einmitt á tilboði hér í Kanada á $29.99. Fyrir ykkur á Íslandi þá veit ég að Elko er með eitthvað úrval af svona hægeldurum, t.d. þennan á 6.995 kr.

Slow-cookerMinn er 4 quart á stærð eða 3,7 lítrar en það er nóg til að elda fyrir 4 manns þannig að við getum átt allavega tvo skammta í afgang. En hvað er svona sniðugt við þetta? Mér finnst afar þægilegt að henda í þetta á morgnana áður en ég fer í vinnuna og vita að maturinn verður tilbúinn þegar ég kem heim. Oft þegar maður kemur heim eftir langan vinnudag nennir maður ekki að eyða of miklum tíma í eldhúsinu. Mér finnst þetta líka þægilegt á sunnudögum, þá hendi ég í pottinn eftir hádegi og þarf svo ekki að spá í þessu meir.

Maður þarf náttúrulega að skera til grænmeti og svona fyrirfram, ekki sker það sig sjálft (þó það væri nú ansi þægilegt). Það sem ég hef gert er að undirbúa eins og ég get kvöldið áður. Þá sker ég grænmeti og set allt í stórt box og finn til kryddin og annað sem þarf. Svo áður en ég fer í vinnuna hendi ég bara öllu í pottinn og stilli á 10 tíma og svo eldast þetta bara allan daginn meðan ég er í vinnunni og íbúðin ilmar þegar ég kem heim.

Það eru nokkrar stillingar á mínum: 4, 6, 8 og 10 tímar. Ef ég stilli á 4 eða 6 tíma þá eldar hann á aðeins hærri hita, en ef ég stilli á 8 eða 10 tíma þá eldar hann á lægri hita. Eftir eldunartímann þá heldur hann heitu þangað til þú slekkur á honum. Þessir pottar eyða víst litlu rafmagni líka og þetta er holl eldunaraðferð því maður þarf oftast ekki olíu. Fyrir sumar uppskriftir eins og hakkrétti þá þarf maður reyndar að steikja hakkið fyrst en fyrir kjúkling þá setur maður oft bringurnar bara heilar í.

slow-cooker-chickn-fajitas8-srgb.Það sem ég er búin að prófa er t.d. chili, súpur, sloppy Joe með linsubaunum og kjúklingaréttur. Það er tilvalið að gera chili því brögðin hafa allan daginn til að blandast og því lengur sem það eldast, því betra. Sama með súpur. Ég er með Pinboard á Pinterest fyrir slow-cooker uppskriftir sem mig langar að prófa. Sem dæmi má nefna kjúklinga fajitas, ýmsar súpur, kókoskarrýkjúkling og lasagna. Er jafnvel að spá hvort það væri ekki hægt að elda jólaskinkuna í þessu.

Ég mæli allavega alveg með þessu fyrir alla sem vilja ekki eyða of miklum tíma í eldhúsinu og vilja borða hollt.


Please follow and like us: