Grænmetisréttir

Hægeldað baunachili

Þetta er eitt besta grænmetischili sem ég hef smakkað. Það er hægt að gera það í venjulegum potti og láta malla á lágum hita í allavega 1 og hálfan tíma, en það er enn betra að gera það í slow-cooker og láta það malla allan daginn, þá ná brögðin að blandast vel saman. Held að það sem hafi gefið þessu sérstaklega gott bragð sé bjórinn, þó mér finnist bjór ekki góður einn og sér. Ef þið viljið sleppa honum notið þá jafnmikið magn af soði í staðinn, en alkóhólið í bjórnum ætti allt að gufa upp við eldunina.

Fyrir utan hvað þetta er gott þá eru baunir fullar af trefjum og járni, góðar fyrir meltinguna, bæta blóðsykursstjórn, lækka kólesteról… Ég hafði með þessu avacado, ferskt kóreander, sýrðan rjóma og smá ost.

2 msk ólífuolía
1 stór rauðlaukur, smátt skorinn
1 rauð paprika, smátt skorin
2 poblano, fræhreinsaðir og smátt skornir (ég fékk ekki poblano og notaði í staðinn jalapeno og setti heilan serrano pipar útí og tók hann svo úr þegar þetta var eldað)
2 gulrætur, flysjaðar og skornar smátt
3 hvítlauksgeirar, kramdir
2 msk chili duft
2 tsk cumin
1 tsk laukduft
1 tsk hvítlauksduft
1 tsk paprikukrydd
2 msk púðursykur
1 tsk þurrkað oregano
3/4 bolli bjór
1/4 bolli tómat paste
3 bollar grænmetissoð
1 dós (um 400 ml) skornir tómatar
1 dós (um 400 ml) rauðar nýrnabaunir, skolaðar og sigtaðar
1 dós (um 400 ml) svartar baunir, skolaðar og sigtaðar
1 dós (um 400 ml) kjúklingabaunir, skolaðar og sigtaðar
1 dós (um 400 ml) gular baunir, skolaðar og sigtaðar
salt og pipar eftir smekk

ofaná:
avacado í sneiðum
sýrður rjómi
ferskt kóreander
smá rifinn ostur
(sleppið sýrðum rjóma og ost ef þið viljið hafa þetta vegan)

————————

Ef þið notið ekki slow-cooker: Steikið lauk, papriku og gulrætur í stórum potti í um 10 mínútur eða þar til grænmetið fer að taka lit. Bætið hvítlauknum við og eldið í 30 sekúndur í viðbót. Bætið þá við restinni af hráefnunum nema salti og pipar og látið malla á meðallágum hita í a.m.k. 1 1/2 tíma. Saltið og piprið í lokin og berið fram í skálum með avacado, sýrðum rjóma, kóreander og rifnum osti.

Ef þið notið slow-cooker: Steikið lauk, papriku og gulrætur á meðalstórri pönnu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið fer að taka lit. Bætið hvítlauknum við og eldið í 30 sekúndur í viðbót. Færið yfir í slow-cookerinn ásamt restinni af hráefnunum og látið malla sem lengst (minn fer upp í 10 tíma), en ef þið hafið minni tíma þá 4 tíma (lægsta stillingin sem minn pottur býður uppá allavega). Berið fram í skálum með avacado, sýrðum rjóma, kóreander og rifnum osti.


Please follow and like us: