Franskar makkarónur eru búnar að vera mjög vinsælar nýlega, bæði á Íslandi og hér í Montreal. Ég ákvað að það væri nú nauðsynlegt að læra að gera svona makkarónur, en áður en ég byrjaði gerði ég smá research. Ég datt inn á fína uppskrift sem ég hef notað síðan, en það á víst að vera frekar auðvelt að klúðra þessum bakstri.
Þær eru frekar viðkvæmar þannig að það er best að fylgja nokkrum grunnreglum til að þær klúðrist ekki. Mér fannst erfiðast að hafa þær jafnstórar þegar ég gerði þær fyrst, en núna á svona fína sílikonmottu þannig að það auðveldar stærðarvandamálið til muna því maður fyllir bara “hólfin” í mottunni og allt verður jafnt.
Grunnreglurnar sem ég hef fylgt eru:
– Hafa eggjahvíturnar við stofuhita
– Baka makkarónurnar efst í ofninum
– Láta þær standa í hálftíma á plötunni áður en þið setjið þær í ofninn
– Setja möndlumjölið og flórsykurinn í matvinnsluvél og sigta það svo.
Ég hef svosem ekki prófað að sleppa neinum af þessu skrefum en þær hafa allavega alltaf tekist vel með þessum ráðum. Það þarf líka að passa að ofhræra þær ekki. Ráð sem ég heyrði til að vita hvort eggjahvíturnar séu orðnar nógu vel þeyttar er að halda skálinni á hvolfi yfir hausnum á þér og ef þær detta ekki þá eru þær mátulega þeyttar. Kannski ekki mjög gáfulegt ráð samt…
Þetta er grunnuppskriftin að makkarónunum:
1 bolli flórsykur
3/4 bollar möndlumjöl
2 eggjahvítur, við stofuhita
örlítið af vínsteinslyftidufti (cream of tartar)
1/4 bolli mjög fínn sykur
matarlitur og bragðefni eftir smekk
—————————————————————–
– Látið eggjahvíturnar standa við stofuhita í nokkra klukkutíma áður en þið byrjið að baka.
– Setjið möndlumjölið og flórsykurinn í matvinnusluvél og “pulsið” nokkrum sinnum til að þetta blandist vel. Sigtið svo blönduna í skál.
– Þeytið eggjahvíturnar á góðum hraða þar til þær fara að freyða og bætið þá vínsteinslyftiduftinu út í.
– Haldið áfram að hræra og bætið sykrinum smám saman út í. Hrærið þar til þetta verður stíft og glansandi, um 2 mínútur.
– Bætið matarlit og bragðefnum út í og látið blandast við.
– Hættið nú að hræra og bætið möndlumjölsmixinu mjög varlega saman við í skömmtum (3-4) með gúmmísleif. Passið að blanda þar til það eru engir kekkir, en ekki ofblanda heldur því þetta er viðkvæmt.
– Setjið deigið í sprautupoka og sprautið í hólfin á sílikonmottunni ef þið eigið þannig, annars á bökunarplötu klædda smjörpappír. Mæli með að horfa á videoið hér fyrir neðan til að sjá hvernig hún gerir þetta.
– Látið þetta nú standa við stofuhita í amk 30 mínútur.
– Bakið ofarlega í ofninum við 165°C (325°F) í 5-10 mínútur. Hafið auga með þeim, ég bakaði mínar í kringum 8 mínútur en það fer eftir ofninum hvað þær þurfa langan tíma. Þær eiga ekki að brúnast, bara vera harðar efst.
– Látið kólna alveg áður en þið takið þær af plötunni og setjið kremið á.
Útfærsluhugmyndir:
Pistasíumakkarónur með hvítri súkkulaðifyllingu:
Skerið pistasíuhnetur smátt og dreifið yfir kökurnar, notið grænan matarlit í deigið.
Hvítt súkkulaðikrem:
90 gr hvítt súkkulaði, smátt skorið
2 msk rjómi
Setjið rjómann og súkkulaðið í pott og bræðið við lágan til meðalháan hita. Setjið í ísskáp í amk 20 mínútur eða þar til þetta verður nógu þykkt til að setja á makkarónurnar.
Kókosmakkarónur með smjörkremi:
Ekki setja matarlit í deigið, dreifið smá kókosmjöli yfir hverja köku ef þið viljið.
Smjörkrem:
1/2 bolli sykur
2 stórar eggjahvítur
1/2 bolli ósaltað smjör, skorið í nokkra bita – best að hafa mjúkt
1/2 tsk kókos extract (önnur útfærsla gæti verið að nota vanilludropa)
smá salt
Þeytið eggjahvíturnar og sykurinn vel saman. Sjóðið smá vatn og setjið eggjahvítublönduna í hitaþolna skál yfir sjóðandi vatninu.
Hrærið af og til þar til blandan verður heit og sykurinn bráðnar, 4-5 mínútur.
Hrærið nú blönduna í hrærivél/með þeytara á meðalhraða, þar til þetta verður létt og ljóst og fer að kólna aðeins. 4-6 mínútur.
Stillið á lægri hraða og setjið smjöri smám saman útí og haldið áfram að hræra vel.
Setjið kókos/vanilludropa og salt út í.
Setjið aftur á meiri hraða og hrærið þar til þetta verður mjúkt og fínt, nokkrar mínútur.
Smjörkremið geymist í kæli í um 4 daga. Ef þið kælið það, takið það þá út og látið ná stofuhita og þeytið það aðeins upp aftur áður en þið ætlið að nota það.
Tagata jarðarberjamakkarónur:
Setjið nokkra dropa af rauðum matarlit í deigið þannig að það verði dökkbleikt.
Jarðarberjafylling:
250 ml rjómi (35%)
35 gr Tagata jarðarberjanammi (frá Haribo)
1 blað matarlím
Daginn fyrir makkarónugerð:
Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni í 5-10 mínútur. Vatnið á að fljóta vel yfir.
Hitið rjómann og jarðarberjanammið þar til það bráðnar.
Takið blöðin upp úr vatninu ásamt því vatni sem loðir við, þ.e. ekki kreista úr þeim vatnið og setjið út í rjómablönduna.
Ef gelatínduft er notað í staðinn fyrir matarlímsblöð, þá er 1 tsk af duftinu dreift yfir 2 tsk af köldu vatni og látið bíða í 5 mínútur og svo sett út í rjómablönduna.
Kælið yfir nótt í ísskáp og hrærið með þeytara fyrir notkun.