Quiche
Ýmislegt

Quiche með skinku og grænmeti

Quiche eru vinsæl hér í Montreal, en þau eru upprunalega frönsk. Þetta er hentugur matur til að t.d. fara með í boð eða bara til að borða sem létta máltíð t.d. með salati eða súpu.

Ég gerði reyndar ekki “skelina” sjálfa þegar ég gerði þetta, var bara löt og keypti tilbúnar frosnar og setti fyllinguna í. Uppskriftin er fyrir tvær meðalstór quiche.

Skelin:
1 2/3 bollar hveiti
1/2 bolli smjör (kalt)
250 gr rjómaostur

Fyllingin:
6 egg
2 bollar skinka, smátt skorin
2 sneiðar beikon, steikt og brotið smátt
2 vorlaukar, smátt skornir
1/2 bolli sveppir, skornir í sneiðar
1/2 bolli matreiðslurjómi
1/2 bolli mjólk
2 bollar rifinn cheddar ostur
1 bolli blómkál, eldað og hakkað smátt
1 bolli brokkolí, eldað og hakkað smátt
1/2 bolli gulrætur, eldaðar og rifnar
1/2 tsk múskat
1/2 tsk steinselja
salt og pipar

——————————————————

Skelin:
Blandið saman hveitinu, smjörinu og rjómaostinum í matvinnsluvél (hrærivél virkar örugglega líka) og mótið í kúlu.

Fletjið deigið út og setjið í tvö meðalstór form. Bakið við 180°C (350°F) í 15 mínútur.

Fyllingin:
Á meðan skelin er í ofninum getið þið undirbúið fyllinguna. Hrærið eggin í 2 mínútur og blandið öllu hinu saman við og hrærið áfram í 2 mínútur. Ég gerði þetta nú bara í höndunum.

Setjið fyllinguna í skeljarnar og bakið í 30 mínútur á sama hita og áður.

Það er auðvitað hægt að nota hvaða grænmeti, kjöt eða afganga sem er. Gæti verið sniðugt að taka til í ísskápnum og nota það sem er til í þetta… t.d. skinku, papriku, spínat eða þessvegna pylsur.


Please follow and like us: