Svakalega gott chili sem ég er farin að elda reglulega. Ef það er afgangur er tilvalið að hita upp í örbylgju og borða næsta dag.
Dugir fyrir fjóra
1 fínt skorinn laukur
2 kramdir hvítlauksgeirar
1 tsk þurrkaður chili (flögur)
1 paprika, skorin í litla bita
2 msk grænmetisolía (canola t.d.)
400 gr fitulítið nautahakk
1 2/3 bollar tómatar í dós (í bitum)
2 msk tómatþykkni (tomato paste)
1 tsk kúmen (duft)
2 msk púðursykur
1/2 bolli nautakjötssoð (beef broth, hægt að nota tening líka)
2 msk vatn, ef þarf
3 bollar rauðar baunir (nýrnabaunir) í dós
salt
nýmalaður pipar
1 msk ferskur kóreander (má sleppa)
1 lime (má sleppa)
– – – – – – – – – – –
1. Undirbúið grænmetið – skerið laukinn, kremjið hvítlaukinn og chili-ið og skerið paprikuna.
2. Hitið helminginn af olíunni á pönnu á miðlungshita. Steikið laukinn og hvítlaukinn í um 3 mínútur eða þar til laukurinn er mjúkur og glær. Fjarlægið af pönnunni og setjið til hliðar. Hellið restinni af olíunni á pönnuna, áfram á miðlungshita, og steikið hakkið í um 5 mínútur.
3. Setjið laukinn og hvítlaukinn aftur á pönnuna. Bætið við tómötunum, tómatþykkninu, paprikunni, chili-inu, kúmen og púðursykrinum. Hellið heitu nautakjötssoðinu saman við. Setjið lok á pönnuna og látið malla á lágum hita í 1 1/2 tíma. Skoðið öðru hvoru hvort þetta sé nokkuð þurrt og bætið vatni á ef þarf. Ég hef reyndar oft bara látið þetta malla í 20 mín ef ég er að flýta mér en það kemur mun betur út að láta þetta malla eins lengi og uppskriftin segir.
4. Hellið af baununum og skolið þær vel. Bætið þeim á pönnuna, blandið öllu vel saman og eldið í 8-10 mínútur í viðbót. Bætið nýmöluðum pipar og salti við. Skreytið með ferskum kóreander og kreistið lime yfir (þetta finnst mér ómissandi skref og gera mjög mikið).
Verði ykkur að góðu!