Indversk kássa
Hakkréttir

Indversk kássa

Uppskrift tekin af mbl.is

Hakkað nautakjöt er ekki algengasta hráefnið í indverskri matargerð. Í þessum rétti sem heitir Massai Kheema og er það sem við á íslensku köllum kássa er hakkið hins vegar notað í bland við fullt af bragðmiklum, indverskum kryddum, sem lengja hráefnislistann töluvert.

Hráefni:

500 g nautahakk
1 bufflaukur, saxaður
5 hvítlauksgeirar, pressaðir
3 msk rifinn engiferrót
1 dós tómatar
1 dós Grísk jógúrt
1 lúka ferskt kóríander, saxað
12 möndlur, setjið í sjóðandi vatn í 1 mínútu. Maukið ásamt 2 msk vatni í matvinnsluvél.
3 dl vatn

Krydd:

2 tsk kúmen
1 tsk turmerik
1 tsk mulinn kóríander
1 tsk kardimomma
2 tsk paprika
1 tsk cayennepipar
5 negulnaglar
5 sm kanilstöng
salt

Aðferð:

Hitið olíu á stórri pönnu eða pottjárnspotti. Setjið negulnaglana og kanilstöngina út í  og hitið í olíunni í eina mínútu. Bætið við lauk, hvítlauk og engifer ásamt kúmen, turmerik, cayennepipar, kardimommu, papriku og muldum kóríander. Brúnið í um fimm mínútur. Bætið þá kjötinu út í og steikið þar til ekkert rautt sést lengur á kjötinu. Saltið.

Bætið nú tómötunum út í og blandið vel saman. Þá er jógúrtinu bætt út í ásamt vatninu og möndlumaukinu. Leyfið suðunni að koma upp og hrærið reglulega í á meðan. Lækkið hitann, setjið lok á pönnuna og látið malla á vægum hita í 45 mínútur.

Bætið Garam Masala og söxuðum kóríander út í og blandið vel saman við rétt áður en rétturinn er borinn fram.

Gott er að hafa með basmati-grjón, naan-brauð og raita.

Athugið! Þetta er einn af þessum réttum sem verður bara betri eftir því sem hann fær að standa lengur og er langbestur daginn eftir.


Please follow and like us: