Afar fljótleg og einföld uppskrift, mun fljótlegra og hollara en að panta pizzu get ég lofað. Þetta er uppskrift fyrir eina þunna einstaklingspizzu. Ef þið eruð mörg þá margfaldið þið auðvitað bara uppskriftina og hver getur sett á sínu pizzu það sem hann vill. Ef þið eruð mjög svöng þá veitir kannski ekki af því að tvöfalda uppskriftina.
Botninn:
1 dl gróft spelt (líka mætti nota 50/50 blöndu af fínu og grófu spelti, eða heilhveiti)
1/4 tsk sjávarsalt
1 msk ólífuolía
tæplega 1/2 dl heitt vatn
Hitið ofninn í 200°C. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og setjið til hliðar. Blandið öllu saman í skál með trésleif eða skeið og hnoðið aðeins saman. Ef deigið er of klístrað bætið þá við meira spelti, en ef það er of þurrt bætið þá aðeins meira heitu vatni.
Dreifið smá fínu spelti á borðið og fletjið pizzuna út. Bakið botninn í 5 mínútur í ofninum og finnið til sósu og álegg á meðan.
Sósa:
Blandið saman krömdum tómötum og ítalskri kryddblöndu í lítilli skál.
Álegg:
Þið getið notað hvað sem þið viljið ofaná pizzuna. Getur verið gott tækifæri til að taka til í ísskápnum. Ég sett lauk, sveppi og rifinn mozzarella ost á mína.
Takið pizzuna út eftir 5 mínútur og setjið sósu, álegg og ost á hana. Setjið aftur inn í ofn og bakið þar til osturinn bráðnar (um 7 mínútur eða svo).
Ég setti smá Arugula kál ofaná mína þegar hún var komin úr ofninum.