Hakkréttir

Tostadas

Þessi uppskrift er ein af mínum uppáhalds og ég hef tostadas reglulega. Fyrir þá sem vita ekki þá er tostadas eins og flöt taco, en subbast ekki eins mikið út og þegar maður borðar harða taco þar sem oft vill allt fara út um allt.

Hérna er uppskriftin:

– smá sletta af olíu til steikingar (ég nota Canola)
– 1 laukur
– 4 hvítlauksrif
– 2 tsk smátt skorinn jalapeno, fræhreinsið ef þið viljið ekki hafa mjög sterkt (ég nota oft chiliflögur í staðinn)
– 450 gr nautahakk (mér finnst magurt betra)
– 1 bolli (250 gr) rauðar nýrnabaunir
– 2 bollar tómatbitar úr dós (chopped tomatoes)
– 1 bolli nautakjötssoð (hálfur teningur út í 250 ml af vatni ætti að passa)
– 3 tsk chili duft
– 1 tsk malað cumin
– 1 tsk þurrkað oregano
– 1/2 tsk salt
– Tostadas

Meðlæti:
– Sýrður rjómi og kóreander
– Salsasósa
– Rifinn ostur
Auðvitað má setja eitthvað meira ofaná eins og t.d. kál og ferska tómata, en ég læt salsa, ost og sýrðan rjóma með kóreander duga

——————————————-

Skerið laukinn, hvítlaukinn og jalapeno (ef notað) smátt og steikið í 3-4 mínútur eða þar til laukurinn verður gegnsær. Bætið við hakkinu og brúnið það. Bætið svo við kryddunum, soðinu, tómötunum og baununum og blandið öllu vel saman. Látið malla á meðalhita í ca 20 mínútur eða þar til meirihlutinn af vökvanum hefur gufað upp.

Á meðan þetta mallar legg ég á borð og sker niður kóreander sem ég hræri saman við sýrða rjómann. Ég finn líka til salsað og ostinn og hita ofninn fyrir tostadas. Þær fara í ofninn í 3 mínútur á 180°C.

Ég set salsað fyrst á tostadas, svo kjötið, ost og sýrðan rjóma og borða með bestu lyst. Verði ykkur að góðu!

Ég myndi segja að þetta myndi duga á 8-10 tostadas, eftir því hvað þið setjið mikið á hverja


Please follow and like us: