Shaksuka
Grænmetisréttir

Shaksuka með kjúklingabaunum

Einfaldur og góður grænmetisréttur. Uppskriftin er mátuleg í tvo skammta.

Uppskriftin kemur úr matarkassaáskrift sem við fáum í hverri viku (svipað og Eldum rétt á Íslandi) þannig að magnið af innihaldsefnum er mjög nákvæmt en það kemur eflaust ekki að sök þó það sé ekki nákvæmlega sama magn af öllu og er gefið upp.

370 ml kjúklingabaunir í dós (ca ein dós)
56 gr laukur, smátt skorinn (ca hálfur laukur)
1/2-1 msk chili hvítlaukssósa (chili garlic sauce) – hvaða “hot sauce” sem er ætti að virka og magnið má vera eftir smekk ef þið viljið ekki hafa mjög sterkt
160 gr paprika (ca 1 paprika)
7 gr ítölsk steinselja (lítið búnt)
1 msk Shaksuka kryddblanda – hægt að blanda sjálfur (hérna ef t.d. uppskrift sem ég fann), aðaluppistaðan í þessu kryddi er cumin, paprika, túrmerik og fleira. Ég myndi prófa t.d. arabískar nætur kryddblönduna frá Pottagöldrum eða álíka
370 ml tómatmauk (crushed tomatoes)
56 gr spínat
100 gr bocconcini ostur
baguette brauð til að hafa með, lítil smábrauð ættu líka að virka
2 hvítlauksgeirar
salt og pipar


Stillið ofninn á “broiler – high” eða mjög háan hita ef þið ætlið að hafa brauð með. Ef ofninn er ekki með þessa stillingu þá getið þið stillt á 200°C og prófað ykkur áfram með tímann á eftir. Þetta er til að hita brauðið seinna í uppskriftinni.

Skerið laukinn og paprikuna í litla bita og kremjið annan hvítlauksgeirann. Skerið steinseljuna og spínatið gróflega. Skerið bocconcini ostinn í tvennt (þessi sem ég var með kom í litlum kúlum og hver kúla var ca 2 munnbitar). Saltið og piprið ostinn. Sigtið og skolið kjúklingabaunirnar.

Hitið stóra pönnu á meðalháum hita. Bætið við 1 msk olíu og þegar hún er orðin heit steikið þá laukinn og paprikuna í 4-5 mínútur. Saltið og piprið. Bætið við shaksuka kryddblöndunni og kramda hvítlauknum. Steikið í 1 mínútu í viðbót.

Bætið við kjúklingabaunum, tómatmaukinu, chili hvítlaukssósunni og 1/4 bolla vatni. Hrærið og látið suðuna koma upp. Látið malla í 7-8 mínútur eða þar til sósan fer að þykkjast. Bætið við helmingnum af steinseljunni og öllu spínatinu. Hrærið þar til spínatið fer að visna, 1 mínútu eða svo. Saltið og piprið.

Dreifið bocconcini ostinum jafnt yfir pönnuna og eldið þar til osturinn fer að bráðna, 4-5 mínútur.

Á meðan þetta mallar skerið þá brauðið í litlar sneiðar og penslið með smá olíu. Bakið þar til brauðið fer að taka lit (2-3 mínútur á broil-high), eða nokkrar mínútur annars, passið bara að það brenni ekki. Nuddið heila hvítlauksgeiranum yfir hverja sneið.

Skreytið með restinni af steinseljunni og berið fram með brauðinu.


Please follow and like us: