Kjúklingur

Öðruvísi kjúklingaborgari

Þessi kjúklingaborgari er ekki alveg hefðbundinn en í honum eru m.a. epli og fennelfræ sem gefa svolítið öðruvísi bragð. Maður finnur ekki mikið fyrir eplunum samt. Ég fékk útúr þessu 4 borgara.

2 tsk kókosolía
1 lítill laukur, smátt skorinn (um 1 bolli)
1 epli, rifið (í matvinnsluvél ef þið eigið þannig til að flýta fyrir)
450 gr kjúklingahakk (ef það fæst ekki má hakka 2 kjúklingabringur í matvinnsluvél, ég gerði það)
1/4 bolli ferskt kóreander, skorið
1 tsk kjúklingakrydd
1 tsk fennelfræ, gróflega skorin
1/2 tsk reykt paprikukrydd
1/2 tsk salt
1/2 tsk pipar

————–

Hitið 1 tsk af kókosolíu á stórri pönnu við meðalhita. Bætið við lauki, saltið lítillega og steikið í 2 mínútur. Bætið eplunum á pönnuna og steikið áfram í 2 mínútur eða þar til eplin og laukurinn fara að mýkjast.

Fjarlægið af hitanum og setjið laukinn og eplin í stóra glerskál og látið kólna í 5 mínútur.

Bætið við kjúklingahakkinu, kóreander, kjúklingakryddi, fennelfræjum, reyktu paprikunni, salti og pipar. Blandið öllu vel saman og mótið 4 borgara.

Hitið 1 tsk af kókosolíu á pönnunni og steikið borgarana í um 3 mínútur á hvorri hlið eða þar til þeir eru eldaðir í gegn.

Berið fram í hamborgarabrauði með majónesi, káli, tómati eða því sem ykkur dettur í hug. Ég smurði þunnt heilhveitiborgarabrauð með þunnu lagi af majónesi og setti aragula kál yfir borgarann.


Please follow and like us: